Vinnustaðanámssjóður

Vinnustaðanámssjóður er starfræktur samkvæmt lögum nr. 71/2012 um vinnustaðanámssjóð. Markmið styrkja til vinnustaðanáms eða starfsþjálfunar er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum sem stunda vinnustaðanám sem hluta af námi á framhaldsskólastigi og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Styrkir til vinnustaðanáms eru veittir á grundvelli ákvörðunar um framlög á fjárlögum hvers árs. 

Markmiðið með styrkjunum er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að taka við nemendum sem stunda vinnustaðanám sem hluta af námi á framhaldsskólastigi og gera þeim kleift að hefja og/eða ljúka því. Rétt til að sækja um styrk eiga fyrirtæki eða stofnanir sem bjóða vinnustaðanám sem fer fram samkvæmt ákvæðum aðalnámskrár framhaldsskóla og hafa á að skipa hæfum tilsjónaraðila sem ber ábyrgð á námi nemanda á vinnustað. Umsækjendur skulu uppfylla almenn skilyrði gildandi reglugerðar um námssamninga og starfsþjálfun hvað varðar hæfi til að annast nemendur í starfsnámi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Rannís að halda utan um umsóknarferlið og auglýsa styrkina haustið 2013. Upphaflega var úthlutað úr sjóðnum tvisvar á ári, en frá og með 1. janúar 2014 var styrkurinn auglýstur fjórum sinnum á ári. Haustið 2015 fengu 95 fyrirtæki styrki fyrir 395 nema. Vorið 2016 voru gerðar breytingar á verklagsreglum sjóðsins og hefur verið leitast við að einfalda umsóknar- og styrkferlið fyrir fyrirtæki. Sökum þessara breytinga þá voru ekki auglýstir styrkir vorið 2016 en í nóvember nk. verður hægt að sækja um styrki fyrir allt árið 2016.

Hlutverk IÐUNNAR er að staðfesta að vinnustaðurinn uppfylli skilyrði um nemaleyfi, að fyrir liggi staðfesting þess að neminn sé á námssamningi og í vinnustaðanámi. Að lokinni greiningu á umsóknum eru upplýsingar sendar til Rannís sem svarar umsækjendum. IÐAN annast síðan útborgun styrkja í umboði Rannís samkvæmt úthlutunarreglum. Að lokinni úthlutun sendir IÐAN yfirlit um afgreiðslu styrkja.