image description

Helstu verkefni stjórnar

Stjórn IÐUNNAR fundaði samtals sex sinnum á starfsárinu. Starfsnefnd stjórnar fundaði samtals 12 sinnum á milli stjórnarfunda. Starfsnefnd skipa þau Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, Georg Páll Skúlason, Finnbjörn Hermannsson,  Atli Vilhjálmsson auk framkvæmda- og fjármálastjóra IÐUNNAR.

Helstu verkefni stjórnar á liðnu starfsári voru eftirfarandi:

Rekstur og skipulagsmál

Stjórn IÐUNNAR samþykkti tillögu að skiptireglum IÐNNAR og eins tillögu að nýju skipuriti félagsins þar sem m.a.starfslýsing sviðsstjóra var staðfest og ábyrgðasvið sviðsstjórna skilgreint með nánari hætti. Stjórn samþykkti einnig tillögu um starfskjarastefnu félagsins. Ákveðið var að laun starfamanna þróist í takt við almennar kjarasamningsbundnar hækkanir á launum.

Vefur IÐUNNAR og stafrænn námsvettvangur

IÐAN fræðslusetur hefur sett sér það markmið að vera í fararbroddi í símenntun í iðnaði hér á landi og bera verk okkar á síðasta starfsári vel þess merki. Stjórn IÐUNNAR samþykkti að fjárfesta í tækjum- og hugbúnað til þess að miðla stafrænu námsefni og kennslu á vegum félagsins. Vefsíða IÐUNNAR  var hönnuð með það í huga að styðja við stafræna miðlun félagsins og markmið um aukna þjónustu við félagsmenn óháð búsetu þeirra. Félagsmenn IÐUNNAR geta nú t.a.m sótt allar upplýsingar um eigin námsferil á vefnum. Nýr kennslubúnaður var  settur upp til þess að streyma út kennslu í rauntíma. Upptökubúnaður var keyptur til að vinna kennslu- og kynningarefni og starfræn kennslustofa IÐUNNAR í Eloomi kennslukerfinu var sett upp. Í Eloomi kennslukerfinu geta fyrirtæki fengið sérsvæði á vef IÐUNNAR fyrir eigin námskeið, kennsluefni og námsferla.

Námsframboðið hefur einnig tekið breytingum og meðal nýjunga má t.d. nefna námskeið um dróna í byggingariðnaði, þrívíddarprentun í bíla- og prentiðnaði, vinnslu á stafrænum bókum og nútíma stjórnun og verklag í anda Lean aðferðarfræðinnar.

Endurmenntun stjórnar

Á aðalfundi IÐUNNAR árið 2017 var samþykkt tillaga um að stjórnarmenn IÐUNNAR þiggi ekki laun fyrir stjórnarsetu í félaginu en gæfist kostur á því að sækja endurmenntun eða fræðslu sem nýtist þeim í starfi. Stjórnarmenn geta nýtt sér heimildina á margvíslegan hátt. Ákveðið var að skipuleggja endurmenntunarferð stjórnar á Euro Skills keppnina í Búdapest dagana 25. – 29. september. Hluti stjórnarmanna IÐUNNAR ákvað að nýta heimild sína til endurmenntunar með því að fara í ferðina.

Stafrænn námsvísir IÐUNNAR

Stjórn samþykkti að hætta útgáfu námsvísins í prentuðu formi en taka í þess stað upp rafræna útgáfu námsvísis, í takt við áform stjórnar um eflingu rafrænnar miðlunar félagsins. Samþykkt var að gefa út kynningarit sem lýsa í stuttu máli þjónustu IÐUNNAR.

Stafræn ársskýrsla IÐUNNAR

Stjórn samþykkti að hætta að gefa út prentaða ársskýrslu, hún verður framvegis sett upp á rafrænan hátt á vefsíðu IÐUNNAR.

Fjölgun í iðnnámi - Látum verkin tala

Stjórn samþykkti að setja á stofn verkefnahóp sem hefur að markmiði að leggja fram stefnu í markaðssetningu iðn- og starfsnáms ásamt aðgerðaráætlun til lengri tíma. Áhersla er á að það skili það meiri árangri en tímabundin átaksverkefni, að fræða ungt fólk og þjálfa í að taka sjálfstæðar ákvarðanir um nám og störf.

Jafnréttisstefna IÐUNNAR

Stjórn IÐUNNAR samþykkti jafnréttisstefnu fyrir félagið og aðgerðaráætlun sem verður uppfærð eftir þörfum.