image description

Fyrirtækjaþjónusta

Á starfsárinu voru heimsótt 138 fyrirtæki um allt land og er því heildarfjöldi heimsókna, frá árinu 2011, kominn í 571 fyrirtæki.

Markaðssetning fyrirtækjaþjónustu IÐUNNAR byggir helst á persónulegum samskiptum sviðsstjóra og náms- og starfsráðgjafa við stjórnendur fyrirtækja, en að auki er þjónustan auglýst í námsvísi og á heimasíðu IÐUNNAR. Þjónusta IÐUNNAR felst meðal annars í kynningu inni í fyrirtækjum á námsframboði hverrar annar, raunfærnimati og þarfagreining vegna fræðslu innan fyrirtækis, áætlanagerð í fræðslumálum og skipulagi á framkvæmd fræðslunnar. Hringt er í fyrirtæki sem greiða símenntunargjöld til IÐUNNAR og boðið upp á heimsókn sviðsstjóra og náms-og starfsráðgjafa í fyrirtækið. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og undantekningarlaust er vel tekið í slíkar heimsóknir.

Mörgum virðist koma á óvart hve mikil og fjölbreytt starfsemi er í gangi hjá IÐUNNI og ljóst að þetta er hvatning til að nýta sér það sem í boði er. Fyrirtæki sem eiga aðild að IÐUNNI njóta umtalsverðrar niðurgreiðslu af kostnaði við námskeiðahald.

Ýmist eru það stjórnendur á vinnustað eða smærri hópar starfsmanna sem sitja slíkar kynningar. Þegar um fjölmenn fyrirtæki er að ræða er oft farið í fleiri en eina heimsókn, þá í ólíka deildir eða starfsstöðvar. Í lok kynningar er einstaklingum boðið að skrá sig í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa sem margir nýta sér. Niðurstaða slíkra viðtala getur verið að fara í raunfærnimat í viðkomandi faggrein, skrá sig á námskeið til að efla færni og ýmislegt fleira.

Eins og áður kom fram voru 138 fyrirtæki heimsótt á liðnu starfsári og heildarfjöldi heimsókna er kominn í 571. Þó skal tekið fram að einhver fyrirtæki hafa verið heimsótt oftar en einu sinni. Fyrirtæki hafa í auknu mæli samband af fyrra bragði og óska eftir kynningu þegar nýr námsvísir IÐUNNAR kemur út.

Allar frekari upplýsingar um fyrirtækjaþjónustuna má finna á vef IÐUNNAR.