Markaðs- og kynningarmál
Á starfsárinu voru lagðar nýjar línur hvað varðar markaðs- og kynningarmál. Ákveðið var að auka áherslu á markaðssetningu á vef, með markpósti og í samfélagsmiðlum. Námsvísir var gefinn út eins og venjulega á haust- og vorönn í rúmlega 14.000 eintökum. Stefnt er að því að hætta útgáfu á hefðbundnum, prentuðum námsvísi.
Námsvísir
Námsvísir IÐUNNAR kemur út tvisvar á ári og er prentaður í rúmlega 14.000 eintökum. Námsvísinum er dreift til félagsmanna um allt land í löturpósti. Námsvísirinn er einnig nýttur í fyrirtækjaheimsóknum auk þess sem honum er dreift til fyrirtækja.
Vefur IÐUNNAR
Námskeiðsframboð IÐUNNAR er aðgengilegt í heild sinni á vefnum. Þar fer einnig fram skráning og öll umsýsla með námskeið. Mikilvægi vefsins sem markaðstækis hefur aukist mjög frá því nýr vefur var tekinn í notkun. Sú breyting hefur orðið á notkun vefs IÐUNNAR að töluverð aukning er á umferð snjalltækja og þá helst snjallsíma.
Markaðsmyndskeið
IÐAN fræðslusetur heldur úti rás á YouTube þar sem veittur er aðgangur að flestum myndskeiðum sem fyrirtækið framleiðir. Myndskeið gegna stöðugt mikilvægara hlutverki í markaðssetningu IÐUNNAR sem og í sjálfu fræðslustarfinu. Á YouTube rás IÐUNNAR má nú finna yfir 50 myndskeið sem notuð eru í fræðslu og markaðsskyni.
Póstlistar
Markaðssetning með tölvupósti er mjög áhrifamikil leið til að ná til okkar félagsmanna og annarra sem áhuga hafa á fræðslustarfi IÐUNNAR. Markpóstar eru sendir út einu sinni til tvisvar sinnum í viku og með hliðsjón af mælingum þá eru þeir mjög öflug leið til að vekja athygli á námskeiðsframboði.
Samfélagsmiðlar
IÐAN fræðslusetur er virk á Facebook, YouTube og Twitter. Mikill vöxtur hefur verið á notkun Facebook í markaðsstarfi og hefur aukning á fylgjendum verið stöðug. Sífellt fleiri þátttakendur skrá sig á námskeið eftir að hafa fengið upplýsingar um námskeiðsframboð á Facebook. Facebook er einnig nýtt til að miðla fróðleik í bland við markaðsefni og má sem dæmi um slíkt taka myndskeið sem birt var á alþjóðlega hamingjudeginum.
Önnur markaðssetning
Auk beinnar markaðssetningar tekur IÐAN fræðslusetur þátt í ýmsum viðburðum, s.s. mannauðsdeginum þar sem IÐAN er reglulega með kynningarbás.